Íslenski boltinn

Eiður Aron: Hefðum getað klárað leikinn oft og mörgum sinnum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
„Við erum alveg hundfúlir með þetta. Þetta var ekki okkar dagur í dag," sagði Eiður Aron Sigurbjörnsson miðvörður Íslands eftir 2-0 tapið gegn Norðmönnum.

„Við vorum mun betri í leiknum (fram að markinu) og í leiknum fannst mér. Þetta mark kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Við fengum fullt af færum og hefðum getað klárað þennan leik oft og mörgum sinnum," sagði Eiður sem háði marga baráttuna við Joshua King, framherja Norðmanna.

„Já, hann er mjög góður, það var mjög erfitt að eiga við hann," sagði Eiður Aron um King sem er á mála hjá Manchester United.

Seinna mark Norðmanna í leiknum var af ódýrari gerðinni.

„Menn gleymdu sér í dekkningu held ég. Boltinn fór yfir mig og svo voru þeir þrír komnir á undan varnarmönnum okkar. Auðvelt mark," sagði Eiður Aron.

Eiður sagði að honum litist vel á lífið hjá Örebro í Svíþjóð og reiknar með því að vera í byrjunarliðinu í næsta leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×