Sport

Ásdís náði lágmarkinu fyrir London 2012

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásdís Hjálmsdóttir keppir á sínum öðrum Ólympíuleikum en hún var einnig með í Peking 2008.
Ásdís Hjálmsdóttir keppir á sínum öðrum Ólympíuleikum en hún var einnig með í Peking 2008. Mynd/Heimasíða ÍR
Ásdís Hjálmsdóttir, spjótkastari úr Ármanni, náði í kvöld lágmarkinu fyrir Ólympíuleikana í London 2012. Ásdís kastaði 59,12 metra í Laugardalnum í kvöld og var afar ánægð að hafa náð lágmarkinu sem er 59 metrar.

„Þetta gekk bara allt upp. Lágmarkið komið í hús. Það er alveg frábært,“ sagði Ásdís í samtali við Vísi.

Ásdís sagði aðstæður í Laugardalnum í kvöld hafa verið góðar.

„Það voru alveg frábærar aðstæður. Smá gola, hlýtt og sól. Þetta var frábært.“

Ásdís var í kapphlaupi við tímann að ná lágmarkinu en keppendur hafa til 15. ágúst til þess að ná lágmörkum sínum.

„Já, ég var ansi glöð. Það er léttir að vera komin með þetta. Það er orðið stutt í „deadline“. Ég var orðin aðeins óróleg yfir þessu. Ég átti vel inni fyrir þessu en maður þarf alltaf smá heppni og góðar aðstæður. Ég hef ekki verið að fá það í sumar. Þetta var mjög kærkomið. Gott að vera búin að klára þetta.“

Ásdís keppir á Demantamótaröðinni í frjálsum íþróttum í London í vikulokin. Ásdís er ánægð að geta farið pressulaus utan.

„Jú, það er fínt. Það er oft þegar það er einhver pressa og maður þarf að kasta ákveðna vegalengd þá er það að trufla mann. Það er fínt að geta farið þangað og einbeitt sér að því að kasta vel. Það er yfirleitt þá sem maður kastar lengst,“ sagði Ásdís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×