Erlent

Le Pen gagnrýnir barnaskap Norðmanna

Mynd/AP
Jean-Marie Le Pen, sem hefur verið með umdeildari stjórnmálamönnum Evrópu um árabil, segir norsk stjórnvöld sek um barnaskap þegar kemur að innflytjendum og fjölmenningarstefnu. Stjórnvöld og almenningur hafa sofið á verðinum hvað þann málaflokk varðar og það er verra en árásir Anders Behring Breivik, að mati Le Pen.

Le Pen, sem verið hefur í fararbroddi Franska þjóðarflokksins í áratugi, hefur fimm sinnum sóst eftir því að verða forseti en aldrei náð kjöri. Hann komst næst því árið 2002 þegar hann atti kappi við Jacques Chirac, sitjandi forseta, í seinni umferð frönsku forsetakosninganna. Dóttir hans Marine er nú leiðtogi og forsetaefnis flokksins, en næstu forstakosningar fara fram á næsta ári. Flokkurinn hefur verið þekktur fyrir harða stefnu í innflytjendamálum og hefur Le Pen sjálfur meðal annars verið að dæmdur fyrir ummæli í tengslum við Helförina.

Le Pen birtir vikulega myndbandsupptökur á heimasíðu Franska þjóðarflokksins þar sem hann fer yfir málefni líðandi stundar. Þar gagnrýnir hann sem fyrr segir stjórnvöld og almenning í Noregi. Í samtali við Reuters-fréttaveituna í dag segist Le Pen ekki hafa verið að gera lítið úr voðaverkum Breiviks í Osló og Útey. Ljóst sé að þar sé á ferðinni afar sjúkur maður. Árásirnar sýni hins vegar að norsk stjórnvöld hafi ekki brugðist við hættunni sem fylgi innflytjendum og fjölmenningarstefnunni sem einkenni mörg ríki Evrópu.

 

Í um 1500 blaðsíða stefnuyfirlýsingu sem Breivik stendi frá sér stuttu fyrir fjöldamorðin sem hann framdi í Osló og Útey gagnrýnir hann útbreiðslu múslima um Evrópu, en segir það sóun á orku og tíma að ráðast að múslimunum. Þess í stað þurfi að ráðast að rót vandans, sem að hans mati eru áhrifamenn sem gera múslimum kleift að dafna í álfunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×