Sport

Íslensk stelpa heimsmeistari í sundknattleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Krisúla Tsoukala.
Kristín Krisúla Tsoukala. Mynd/AP
Hin íslenska Kristín Krisúla Tsoukala varð í dag heimsmeistari í sundknattleik með gríska landsliðinu. Grikkir unnu 9-8 sigur á gestgjöfum Kína í úrslitaleiknum á HM í Sjanghæ.

Þetta er fyrsta sinn sem gríska kvennalandsliðið vinnur þessa keppni sem er haldin á tveggja ára fresti í tengslum við HM í sundi og ennfremur fyrsta gríska landsliðið í öllum greinum sem nær því að verða heimsmeistari.

Kristín Krisúla er bæði með íslenskan og grískan ríksiborgararétt en hún er dóttir Þóru Bjarkar Valsteinsdóttur og Makis Tsoukalas. Hún er fædd árið 1991.

Kristín spilaði í 16 mínútur og 12 sekúndur í úrslitaleiknum en tókst ekki að skora úr þremur skotum sínum. Hún lét líka finna fyrir sér í lauginni og fékk útilokun. Kristín skoraði alls fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar í Heimsmeistarakeppninni þar af komu tvö marka hennar í tveggja marka sigri á Hollandi í átta liða úrslitunum.

Kristín er yngsti leikmaður gríska landsliðsins, aðeins tvítug að aldri, en hún var fyrst valin í gríska landsliðið á Ólympíuleikunum í Peking 2008. Kristín tók einnig þátt í því að vinna silfur á Evrópumóti landsliða á síðasta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×