Fótbolti

Katrín og Rúnar hljóta verðlaun frá UEFA

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Rúnar sýndi gamalkunna takta í Meistaraleik Steina Gísla
Rúnar sýndi gamalkunna takta í Meistaraleik Steina Gísla
Evrópska knattspyrnusambandið UEFA hefur ákveðið að verðlauna þá landsliðsmenn sem spila 100 eða fleiri landsleiki fyrir þjóð sína. Af íslenskum landsliðsmönnum hafa aðeins Rúnar Kristinsson og Katrín Jónsdóttir spilað yfir 100 landsleiki.

Ýmsar áhugaverðar ákvarðanir voru teknar á fundi framkvæmdaráðs UEFA á dögunum. Meðal þeirra er að leikmenn sem ná að spila 100 landsleiki fyrir þjóðir sínar fái heiðursleik. Þá fá allir þeir leikmenn sem nú þegar hafa náð áfanganum verðlaunapening frá UEFA sem afhentur verður á þjóðarleikvangi leikmannanna.

Katrín Jónsdóttir landsliðsfyrirliði hefur spilað 106 landsleiki og er enn í fullu fjöri. Rúnar Kristinsson lék á sínum tíma 104 landsleiki fyrir Íslands hönd.

Þá var tekin sú ákvörðun að flýta Evrópumóti U-21 landsliða í Ísrael árið 2013. Mótið átti upphaflega að fara fram dagana 15.- 29. júní en verður nú 5.- 18. júní. Ástæðan er árekstur við álfukeppni FIFA í Brasilíu síðari hluta júní.

Það er því vissara fyrir bjartsýna stuðningsmenn íslenska U-21 landsliðsins að huga að breytingum á flugmiðum sínum hafi þeir þegar bókað ferð til Ísrael.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×