Fótbolti

Wilshere: Fletcher, Park og Valencia nýtast vel gegn Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jack Wilshere reynir að stoppa Lionel Messi í leik á móti Barcelona.
Jack Wilshere reynir að stoppa Lionel Messi í leik á móti Barcelona. Mynd/Nordic Photos/Getty
Jack Wilshere, miðjumaður Arsenal og enska landsliðsins, segir United-liðinu henti betur að mæta Barcelona en Arsenal. Barcelona sló Arsenal út úr sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar en Wilshere hefur sínar skoðanir á því hvernig Manchester United eigi að spila á móti Barcelona þegar þau mætast í úrslitaleiknum á Wembley á morgun.

„Þrjá sendingar, bang, bang, bang, og þeir eru komnir í gegn. Það þarf að komast alveg að þeim og eins og ég hef sagt áður þá þurfa menn að halda dampi á móti þeim, sagði Jack Wilshere aðspurður um úrslitaleik Manchester United og Barcelona.

„United er í góðum málum því þeir hafa leikmann eins og Fletcher sem eltir Barcelona-mennina uppi. Menn verða að stoppa Xavi, Messi og Iniesta því annars munu þeir drepa þig," segir Wilshere.

„United á betri möguleika en við á móti Barcelona af því að þeir hafa menn eins og Fletcher, Park og Valencia sem nýtast vel gegn Barcelona. Þeir eru hlauparar sem geta stoppað menn. Ég myndi láta Fletcher spila á miðjunni með Carrick og Giggs," segir Wilshere og bætti við:

„Við spiluðum bara með Robin van Persie en ég myndi nota Rooney einan upp á toppi og láta síðan Valencia og Park hjálpa honum af köntunum þegar United-liðið væri með boltann. Þeir verða samt mest allan tímann í vörn í þessum leik því þannig leikur bíður manns alltaf á móti Barcelona," sagði Wilshere.

„Möguleikarnir liggja í því að komast alveg að þeim og láta þá finna fyrir sér frá byrjun því þá gefa þeir alltaf eftir í seinni hálfleiknum," sagði Wilshere sem sagði að það hefði einmitt gerst í fyrri leiknum sem Arsenal vann á móti Barcelona í sextán liða úrslitum Meistaradeildarinnar í ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×