Innlent

Formaður Lögmannafélagsins segir ákæru óskýra

Helga Arnardóttir skrifar
Formaður Lögmannafélagsins telur miklar líkur á að ákærunni gegn Geir Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, verði vísað frá Landsdómi. Hún uppfylli ekki nútímakröfur um skýrleika í ákæruskjölum. Hann segir pólitískt uppgjör ekki eiga heima í réttarsölum.

Geir Haarde og verjandi hans hafa báðir gagnrýnt ákæruna sem saksóknari Alþingis gaf út á hendur honum síðastliðinn þriðjudag. Þeim þótti alltof langur tími liðinn frá ályktun Alþingis um málshöfðun að útgáfu ákærunnar sjálfrar.

Þá sagði verjandi Geirs að ákæran væri óskýr og illa ígrunduð og efaðist um hvort hún yrði tæk fyrir dómi. Undir það tekur Brynjar Níelsson hæstaréttarlögmaður og formaður Lögmannafélagsins.

„Í mínum huga finnst mér ákæra af þessu tagi ekki tæk í nútíma sakamálaréttarfari," segir Brynjar Níelsson, formaður Lögmannafélagsins.

Lög um ráðherraábyrgð og landsdóm séu úrelt og í engu samræmi við nútímakröfur um skýrleika í ákærum.

Geir sé ákærður fyrir athafnaleysi en:

„Það er ekki sagt í ákærunni hvað hann hefði átt að gera, eða hvað hann hefði getað gert til þess að afstýra þessu. Þannig að með því að segja ekki nákvæmlega hvað Geir átti að gera til að afstýra því sem átti eftir að gerast gerir ákæruna ótæka," segir Brynjar.

„Mér finnst þetta vera pólitískt uppgjör í réttarsal," segir Brynjar svo.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×