Fótbolti

UEFA hlustar ekki á kvartanir Real Madrid og Barcelona

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
UEFA, Knattspyrnusamband Evrópu, vill ekki aðhafast neitt í kvörtunum Real Madrid og Barcelona í kjölfarið á fyrri undanúrslitaleik liðanna í síðustu vikur og hefur ennfremur staðfest það að rauða spjald Pepe muni standa.  Pepe verður því í banni í seinni leiknum á morgun.

Forráðamenn Real Madrid vildu að sex leikmenn Barcelona yrðu dæmdir í leikbann fyrir óíþróttamannslega framkomu og fyrir það að hafa reynt að blekkja dómarann. Barcelona vildi að UEFA refsaði Jose Mourinho, þjálfara Real Madrid, fyrir ummæli sín eftir fyrri leikinn.

Mourinho hélt því fram að Barcelona fengi sérmeðferð hjá dómurunum og ýjaði ennfremur að því að það gæti nú ekki verið gaman fyrir Pep Guardiola, þjálfara Barcelona, að vinna meistaradeildina með því að "svindla".

Barcelona vann fyrri leikinn 2-0 og er því í afar góðri stöðu fyrir seinni leikinn sem fer fram á Camp Nou á morgun. Real Madrid liðið þarf að skora þrjú mörk til þess að slá erkifjendur sína út.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×