Fótbolti

UEFA sendir Collina á leik Barca og Real í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pierluigi Collina.
Pierluigi Collina. Mynd/Nordic Photos/Getty
Knattspyrnusamband Evrópu, UEFA, ætlar að passa upp á allt gangi snurðulaust fyrir sig á seinni leik Barcelona og Real Madrid í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Það gekk mikið á í kringum fyrri leikinn enda hafa liðin staðið í miklu orðastríði síðan að þeim leik lauk.

Barcelona vann fyrri leikinn 2-0 og er því í draumastöðu fyrir leikinn í kvöld sem fer fram á heimavelli þeirra á Camp Nou. Real Madrid er líka með þá Pepe, Sergo Ramos og þjálfarann Jose Mourinho í banni í þessum leik.

UEFA hefur ákveðið að senda einn frægasta dómara allra tíma, Ítalann Pierluigi Collina, til að fylgjast með belgíska dómaranum Frank de Bleeckere sem verður með flautuna í kvöld. Þjóðverjinn Wolfgang Stark dæmdi fyrri leikinn og komst ekkert alltof vel frá því verkefni.

Pierluigi Collina er nú yfirmaður dómaramála hjá UEFA og það hafa fáir dómarar komist með tærnar sem hann hafði hælana þegar hann var upp á sitt besta. Collina dæmdi meðal annars seinni undanúrslitaleik Real og Barca árið 2002 en liðin gerðu þá 1-1 jafntefli í Madrid og Real-liði komst í úrslitaleikinn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×