Fótbolti

Madrídingar hundfúlir út í dómarana

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
De Bleeckere og Xabi Alonso í leiknum í kvöld.
De Bleeckere og Xabi Alonso í leiknum í kvöld. Nordic Photos / AFP
Xabi Alonso, leikmaður Real Madrid, segir að það hafi verið dómurunum að kenna að liðið komst ekki áfram í úrslitaleikinn í Meistaradeild Evrópu.

Real Madrid gerði í kvöld 1-1 jafntefli við Barcelona í síðari viðureign liðanna í undanúrslitunum. Það dugði ekki til þar sem að Börsungar unnu fyrri leikinn í Madríd, 2-0.

Þýski dómarinn Wolfgang Stark dæmdi fyrri leikinn og þótti eiga slæman dag. Í kvöld var dæmdi svo Frank De Bleeckere, dómari frá Belgíu, mark af Madrídingum í stöðunni 0-0.

„Leikurinn hefði þróast allt öðru vísi ef markið okkar hefði fengið að standa,“ sagði Alonso eftir leikinn í kvöld. „Okkur finnst að margar ákvarðanir dómaranna hafi bitnað á okkur í þessum leikjum og við erum ekki ánægðir með það.“

„við stóðum okkur virkilega vel en ákvarðanir dómaranna bitnuðu á okkur.“

Jose Mourinho, stjóri Real Madrid, var rekinn af velli í fyrri leiknum fyrir mótmæli og tók því út leikbann í kvöld. Aðstoðarmaður hans, Aitor Karanka, tók í svipaðan streng og Alonso.

„Mourinho hafði rétt fyrir sér. Hann sagði að það myndi reynast okkur ómögulegt að komast áfram. Leikurinn í kvöld sannaði það og 100 milljónir sjónvarpsáhorfenda geta borið vitni um það. Það er engu við það að bæta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×