Formúla 1

Horner: Vettel er fullur sjálfstrausts

Red Bull fögnuðu sigri Sebastian Vettel í gær með því að stilla sér upp fyrir myndatöku.
Red Bull fögnuðu sigri Sebastian Vettel í gær með því að stilla sér upp fyrir myndatöku. Mynd: Getty Images/Clive Mason
Christian Horner, yfirmaður Red Bull telur að Sebastian Vettel vaxi og þroskist með hverju mótinu sem hann keppir í. Vettel vann sitt annað Formúlu 1 mót á árinu í Malasíu í gær.

„Hann er í frábæru ásigkomulagi. Hann var svalasti maðurinn í Malasíu á keppnisdag. Á þjónustuveggnum var meiri hiti. Þegar ég talaði við hann, þá var hann með stjórn á öllu og nokkuð afslappaður", sagði Horner um samskipti þeirra í keppninni gegnum talkerfi bílsins í frétt á autosport.com í dag.

„Vettel er á góðum stað og hann er með mikið sjálfstraust og skilar sínu. Reynsla hans er að vaxa og hann sýndi þroskaða frammistöðu og yfirvegaðan akstur. Hann er að safna reynslu í sarpinn. Það er auðvelt að gleyma því að hann er aðeins 23 ára gamall", sagði Horner.

Vettel hefur verið fremstur á ráslínu í báðum mótum ársins, nælt í tvo gull og er með 24 stiga forskot á Jenson Button í stigamóti ökumanna. Vettel er með 50 stig, Button 26 og Lewis Hamilton og Mark Webber eru með 22.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×