Sport

Þormóður: Vill fá verðlaun á heimsbikarmóti

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þormóður Jónsson varð í gær tvöfaldur Íslandsmeistari í júdó og stefnir hann næst að komast á verðlaunapall á heimsbikarmóti.

Hann segir að keppnin á mótinu í gær hafi verið eins og hann bjóst við fyrirfram.

„Nema að Gunnar Nelson var með í dag. Ég fékk þó ekki að glíma við hann," sagði Þormóður en viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.

„En ég þurfti samt sem áður að eiga góðan dag. Ég þurfti að vera tilbúinn og það var það sem ég reyndi að gera."

Fram undan hjá Þormóði eru stífar æfingar. „Næstu fjórar vikur verða hreint helvíti en þá ætla ég að koma skrokknum í toppstand. Eftir það sem ég fer til Tékklands sem er mitt annað heimaland og verð þar í stífrí júdóþjálfun."

„Eftir fjórar vikur þar fer ég á Smáþjóðaleikana til að fínstilla mig því eftir þá koma þrjú heimsbikarmót í röð."

„Þar ætla ég að reyna að toppa og finnst mér að ég standi mjög vel að vígi í dag. Mitt markmið er að reyna að komast á pall á heimsbikarmóti og hvar ég stend í heiminum eftir það verður bara að koma í ljós."

„Ég varð fimmti á heimsbikarmóti fyrir mánuði síðan og því einni glímu frá því að komast á pall. Ég tel það því vera raunhæft markmið."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×