Viðskipti erlent

Dönsk ríkisskuldabréf seljast eins og heitar lummur

Samkvæmt nýjum upplýsingum frá Nationalbanken, danska seðlabankanum, keyptu erlendir fjárfestar dönsk ríkisskuldabréf fyrir 21 milljarð danskra kr. í febrúar s.l.  Þar með eiga útlendingar nú um 321 milljarð danskra kr., eða tæplega 6.500 milljarða kr., í dönskum ríkisskuldabréfum.

Í frétt um málið í börsen.dk segir að þar með sé heildareign útlendinga í dönskum ríkisskuldabréfum orðin meir en hún var í ágúst í fyrra þegar hún sló met.

Það eru einkum styttri flokkar danskra ríkisskuldabréfa sem fjárfestar sækja í, að er bréf til eins og tveggja ára. Jafnmikil eftirspurn er eftir þeim bréfum sem dönsk stjórnvöld hafa gefið út í dönskum krónum og dollurum.

Samkvæmt upplýsingum frá Nationalbanken er um tveir þriðju hlutar seldra ríkisskuldabréfa í dönskum kr. en einn þriðji í dollurum en nýr skuldabréfaflokkur í dollurum til tveggja ára var gefinn út eftir áramótin.

Ásókn í dönsk ríkisskuldabréf skýrist einkum af ástandinu í ríkjum suðurhluta Evrópu þar sem fjárfestar hafa reynt að losa sig úr stöðum sínum eins hratt og þeir geta. Þetta á við lönd eins og Grikkland, Portúgal og Spán.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×