Sport

Dýrkeypt klúður - milljarða keppnissundlaug reyndist of stutt

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Ólympíuleikarnir fara fram í London sumarið 2012 og eru Bretar langt komnir með uppbyggingu á þeim íþróttamannvirkjum sem á að nota á leikunum.
Ólympíuleikarnir fara fram í London sumarið 2012 og eru Bretar langt komnir með uppbyggingu á þeim íþróttamannvirkjum sem á að nota á leikunum. Nordic Photos/Getty Images
Ólympíuleikarnir fara fram í London sumarið 2012 og eru Bretar langt komnir með uppbyggingu á þeim íþróttamannvirkjum sem á að nota á leikunum. Ýmis æfingamannvirki hafa einnig verið byggð víðsvegar um landið og þar má nefna glæsilega æfinga – og keppnissundlaug í Portsmouth.

Sundlaugarmannvirkið kostaði bæjarfélagið um 1 milljarð kr. en stór mistök voru gerð við hönnunina. Sundlaugin er of stutt og ekki er hægt að nota hátækni tímatökubúnað í sundlauginni .

Það eru því litlar líkur á því að bestu sundmenn heims flykkist til Portsmouth til æfinga og keppni – eins og áætlanir gerðu ráð fyrir.

Málið hefur vakið athygli því laugin átti að vera í hæsta gæðaflokki og jafnast á við það besta sem gerist í heiminum. Nú er hinsvegar ljóst að laugin verður ekki notuð sem „alvöru" keppnislaug þar sem að ekki var gert ráð fyrir að koma fyrir tímatökubúnaðinum við sundlaugarbakkann. Hönnuðir laugarinnar gleymdu að gera ráð fyrir því að laugin styttist um 5 sm. þegar tímatökubúnaðurinn er settur upp.

Sveitastjórnin sem stóð að byggingunni hefur verið harðlega gagnrýnd af minnihlutanum og er ljóst að fá met verða sett í lauginni í framtíðinni. Enda aðeins hægt að nota gamaldags handtímatöku á sundlaugarbakkanum – og slík tímamæling uppfyllir ekki kröfur nútímans.

Það bendir því allt til þess að sundlaugin verði að mestu notuð af almenningi en keppnisfólkið á ekki eftir að streyma til Portsmouth til þess að bæta tímana sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×