Enski boltinn

Liverpool án Gerrard í seinni leiknum við Sparta Prag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, með boltapokann á æfingu.
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, með boltapokann á æfingu. Mynd/AFP
Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, mun ekki spila með Liverpool á Anfield á morgun þegar tékkneska liðið Sparta Prag kemur í heimsókn í seinni leik liðanna í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Sparta Prag og Liverpool gerðu markalaust jafntefli í fyrri leiknum í Tékklandi.

Gerrard er búinn að missa af tveimur síðustu leikjum Liverpool vegna nárameiðsla en Liverpool-menn vonast til að hann geti verið með á móti West Ham United í ensku úrvalsdeildinni á sunnudaginn.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er ekki endanlega búinn að gefa það út að Gerrard spili ekki leikinn en það er langlíklegast að hann taki enga óþarfa áhættu með fyrirliða sinn.

„Eins mikið og ég myndi elska það að Steven yrði með þá tel ég að við þurfum að hugsa lengra en bara um þennan eina leik. Ef hann verður hundrað prósent klár á morgun þá kemur hann samt til greina eins og allir heilir leikmenn," sagði Kenny Dalglish.

Daniel Agger og Jay Spearing gætu spilað leikinn en Fabio Aurelio og Luis Suárez verða ekki með, Aurelio er meiddur og Suárez er ólöglegur þar sem að hann spilaði með Ajax í Evrópudeildinni fyrr í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×