Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, segir að það sé rangt að Alþingi hafi í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haarde skuldbundið þjóðina til að greiða Icesave skuldina. Þóra Kristín Árnadóttir blaðakona hélt þessu fram í leiðara á vefritinu Smugunni.
„Íslenska þingið skuldbatt þjóðina til að greiða Icesave-peningana í tíð ríkisstjórnar Geirs H. Haarde hvað sem mönnum kann að finnast um lagalega stöðu málsins. Þess vegna getur íslenska þjóðin siðferðislega ekki tekið afstöðu til annarra hluta en á hvaða vöxtum og með hvaða skilmálum þær endurgreiðslur eigi að vera," sagði Þóra Kristín meðal annars í leiðaranum.
Ingibjörg Sólrún segir í athugasemd á Facebook síðu sinni í dag að þetta sé ekki rétt hjá Þóru Kristínu. „Alþingi samþykkti þann 5. des 2008 að ganga til viðræðna um Icesave á tilteknum grundvelli. Þetta var þingsályktun sem byggðist á mati á stöðunni á þeim tímapunkti og fól í sér pólitíska skuldbindinu þáverandi stjórnvalda að fara samningaleiðina. Ályktunin skuldbindur þjóðina ekki með neinum hætti að þjóðarrétti,“ segir Ingibjörg Sólrún á Facebook síðu sinni.
Þjóðin ekki skuldbundin til að greiða Icesave skuldina
