Enski boltinn

Rooney, Messi og Kaka allir farnir til City - eða þannig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Myndin umrædda - hvar er Valli?
Myndin umrædda - hvar er Valli?
Mennirnir sem sáu um leikskrána fyrir leik Aris Thessaloniki og Manchester City í Evrópudeild UEFA í vikunni eru greinilega með húmorinn í lagi.

Í stað þess að nota opinbera útgáfu af liðsmynd Manchester City voru þeir búnir að breyta henni og bæta aðeins í hópinn.

Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd má þarna finna leikmenn eins og Wayne Rooney, Kaka, Zlatan Ibrahimovic, Lionel Messi, Didier Drogba, Fernando Torres og Mesut Özil.

Alls voru 60 leikmenn í hópnum og þykir myndin minna helst á plötuumslag Sgt. Pepper's Lonely Hearts Club Band eftir Bítlana.

Fulltrúar City á leiknum sáu skýrsluna fyrir leikinn og ætluðu ekki að gera mikið úr þessu enda sjá þeir sjálfsagt spaugilegu hliðina við þetta.

En forráðamönnum Aris fannst þetta svo neyðarlegt að ákveðið var að henda öllu prentuðu upplagi af leikskránni.

The Guardian greinir reyndar frá því að þetta hafi verið saklaus mistök hjá þeim sem sáu um leikskrána. Þeir hafi fundið umrædda mynd á netinu og ekki gert sér grein fyrir því að um grínmynd væri að ræða.

Meðal allra frægu leikmannanna á myndinni má einnig finna hann Valla sem er þekktur fyrir að fela sig í margmenni á hinum ýmsu stöðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×