Söngkonan Ellen Kristjánsdóttir er á leið á bráðamóttökuna eftir að hafa lent í átökum við lögregluna í mótmælunum fyrir utan Seðlabankann. Hún segir að lögreglan hafi snúið upp á hönd hennar.
Ellen, sem er systir KK og hefur sungið með frægum hljómsveitum á borð Mannakorn, ræddi við Val Grettisson, blaðamann Vísis, sem er staddur fyrir utan Seðlabankann. Hún segist hafa setið við inngang Seðlabankans þegar lögreglan kom að henni og sneri fyrirvaralaust upp á handlegg hennar. Hún var ekki handtekin en segist meidd eftir átökin og á leið á bráðamóttökuna.
„Ég er komin með nóg af aðgerðarleysi hjá yfirvöldum," segir Ellen. „Þessi tilmæli eru ósanngjörn og fjármálafyrirtækin hafa farið illa með okkur."
Samkvæmt blaðamanni Vísis er boðað aftur til mótmæla á hádegi á morgun fyrir framan Seðlabankann og að þeim loknum verður tekin mótmælastaða fyrir utan Alþingi.