Lífið

Eldgosið eyðilagði heimsmetstilraun

Mortara sló eitt heimsmet þegar hann flaug í kringum hnöttinn á tæpum 58 klukkustundum. Eldgosið á Íslandi kom hins vegar í veg fyrir aðra heimsmetstilraun. NordicPhotos/Afp
Mortara sló eitt heimsmet þegar hann flaug í kringum hnöttinn á tæpum 58 klukkustundum. Eldgosið á Íslandi kom hins vegar í veg fyrir aðra heimsmetstilraun. NordicPhotos/Afp

Eldgosið við Fimmvörðuháls eyðilagði aðra af tveimur heimsmetstilraunum svissneska flugmannsins Riccardo Mortara. Mortara hugðist slá met ævintýramannsins Steves Fossett með því að fljúga hringinn í kringum hnöttinn á innan við 67 klukkustundum. Það tókst því Mortara flaug hringinn á 57 klukkustundum og 54 mínútum. Honum mistókst hins vegar að slá met kylfingsins Arnolds Palmer sem flaug í kringum heiminn á 57 klukkustundum og 26 mínútum á mun léttari vél. Mortara segir eldgosið á Íslandi hafa eyðilagt þau plön og seinkað ferðinni um fjórar klukkustundir.

Mortara ætlaði að lenda í Keflavík eftir viðkomu í Kanada en flugvellinum var hins vegar lokað vegna eldgossins við Eyjafjallajökul og Mortara neyddist til að snúa við. „Við settum okkur háleit markmið og ætluðum að slá met Palmers,“ segir Mortara í yfirlýsingu á Facebook-síðu sinni. „Okkur hefði sennilega tekist að slá það um fjórar klukkustundir ef ekki hefði orðið þetta eldgos á Íslandi.“

Eldgosið á Fimmvörðuhálsi hleypti miklum taugatitringi í áhöfn Mortara eins og kemur fram á heimasíðu heimsmetstilraunarinnar, 360worldrecord.com.

„Ég var vakinn og mér sagt frá eldgosinu á Íslandi. Þetta var eins og martröð,“ skrifar Carlo Allauigan, einn úr áhöfn flugvélarinnar. Mortara flaug Sabreliner 65-flugvél til að setja metið en slíkar vélar voru fyrstu einkaflugvélarnar sem byggðar voru handa auðjöfrum og fólki loðnu um lófana.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×