Chelsea mætir Spartak Moskvu á "plastinu" í Moskvu í dag og Carlo Ancelotti, stjóri Chelsea, er ekki viss um að hann treysti sér í að nota Ashley Cole á vellinum.
Cole hefur verið í vandræðum með ökklann á sér og þarf oftast að hvíla í tvo daga eftir leiki.
"Hann myndi þurfa enn fleiri daga til þess að jafna sig eftir leik á þessum velli. Ökklinn hefur verið að trufla hann í heilt ár. Ég spilaði sjálfur í 10 ár með slæmt hné og veit því hversu mikilvægt það er að hvíla," sagði Ancelotti.
Michael Essien er einnig tæpur eftir að hafa í tvígang meiðst á hné. Ramires er þess utan ekki klár í slaginn rétt eins og Alex, Didier Drogba, Jose Bosingwa, Benayoun og Frank Lampard.