Innlent

Nauðugur kostur að sögn bænda

Haraldur Benediktsson Formaður Bændasamtaka Íslands.Fréttablaðið/Teitur
Haraldur Benediktsson Formaður Bændasamtaka Íslands.Fréttablaðið/Teitur

„Þetta er gert í skugga þess að það þarf að skera niður, og okkur var bara nauðugur sá kostur að taka þátt í því,“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, um nýjan búnaðarlagasamning sem fulltrúar ríkis og bænda undirrituðu í gær.

Haraldur kallar þetta nauðasamning, enda hefur verðgildi hans fallið um fjörutíu prósent, eða úr 920 milljónum, sem er uppreiknað gildi síðasta samnings, sem gerður var árið 2005, niður í 415 milljónir.

„Samkvæmt lögum á samningurinn að vera til fimm ára, en við gerðum núna eins konar bráðabirgðasamkomulag til tveggja ára. Eftir það getum við vonandi farið að byggja upp á ný í sveitunum.“

Búnaðarlagasamningur snýst einkum um greiðslur til búfjárræktar og ráðgjafar til bænda. Haraldur segir bændur hafa metið það svo, að illskárra sé að skera þar niður en í búvörusamningnum, sem snýst um kjör bænda.

„En þetta rífur mikið í,“ segir Haraldur. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×