Fótbolti

Árni Gautur ekki áfram í Odd Grenland

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Árni Gautur Arason.
Árni Gautur Arason. Mynd/Scanpix
Árni Gautur Arason á von á því að hann muni spila sinn síðasta leik með Odd Grenland í norsku úrvalsdeildinni um helgina.

„Ég býst fastlega við því að ég verði ekki áfram hjá Odd Grenland," sagði Árni Gautur í samtali við Vísi í dag.

„Það er óljóst hvað tekur við en ég mun reyna fyrst um sinn að finna mér eitthvað félag hér úti. Konan mín er enn í námi hér og það er því ekki fyrsti kostur að koma heim."

Árni Gautur hefur verið að glíma við kviðslit og þarf að fara í aðgerð vegna þessa eftir að tímabilinu lýkur í Noregi. „Ég mun svo sjá til eftir það hvernig málin þróast."

Hann segir að félagið muni fá tvo nýja markverði fyrir næsta tímabil og því muni hann fara annað.

„Þeir sögðu fyrst í sumar að ég myndi fá nýjan samning. En svo fékk félagið nýja eigendur sem ætla sér að skera mikið niður í kostnaði. Það eru þar að auki tveir yngri markverðir að koma til félagsins og því ólíklegt að ég verði áfram."

Hann segist ætla að halda áfram í boltanum. „Ég vona að ég eigi einhver ár eftir ef ég næ að halda mér heilum," sagði Árni Gautur.

Odd Grenland er í fimmta sæti norsku úrvalsdeildarinnar en lokaumferðin fer fram un helgina. Liðið á góðan möguleika á að koma sér upp í fjórða sætið þar sem að Álasund, sem er nú í fjórða sæti, á leik gegn Noregsmeisturum Rosenborg í lokaumferðinni.

Fjórða sætið veitir þátttökurétt í forkeppni Evrópudeildar UEFA.

Árni Gautur, sem er 35 ára, hefur spilað 24 af 29 leikjum liðsins í deildinni í sumar. Hann á langan feril að baki og spilað með Rosenborg og Vålerena í Noregi sem og Manchester City í Englandi og Thanda í Suður-Afríku. Hann á að baki 71 leik með A-landsliði Íslands.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×