Brynjar Þór Björnsson lék vel með KR í Stykkishólmi í kvöld og átti mikinn þátt í 90-86 sigri liðsins sem tryggði KR deildarmeistaratitilinn og heimavallarrétt út úrslitakeppnina.
„Þetta var mjög ljúft og gott að klára þetta á okkar forsendum en ekki treysta á það að ÍR myndi vinna," sagði Brynjar og hann var ánægður með Pavel Ermolinskij.
„Pavel steig upp í lokin og það má segja að þetta hafi verið besti leikurinn hans sóknarlega. Hann er búinn að vera að finna okkur vel í öllum leikjunum en þarna tók hann af skarið sóknarlega," sagði Brynjar og heimavallarrétturinn skiptir KR miklu máli.
„Þetta eykur hamborgarasöluna," sagði Brynjar í léttum tón en bætti svo við: „Við ætlum að fara inn í úrslitakeppnina og vinna titilinn. Það er markmið númer og sem betur fer höfum við heimavallarréttinn," sagði Brynjar að lokum.