Enski boltinn

Jovanovic hafnaði Real Madrid áður en hann samdi við Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Milan Jovanovic með þeim Danny Wilson og Joe Cole.
Milan Jovanovic með þeim Danny Wilson og Joe Cole. Mynd/AFP
Serbinn Milan Jovanovic segist hafa hafnað því á sínum tíma að fara til Real Madrid og valdi frekar að semja við Liverpool. Ástæðan er að hann var efins um að fá eitthvað að spila hjá Real.

„Ég held að um 99 prósent af öllum þeim sem ég talaði við skilji ekki af hverju ég sagði nei við Real. Ég er kannski bara svona einstakur en ég vissi að ég yrði bara venjulegur leikmaður hjá Real Madrid en ég gat verið stjarnan í Belgíu," sagði Milan Jovanovic við Sky Sports.

„Deildin í Belgíu er ekki stór en ég vann þar tvo meistaratitla og fékk tvö stór einstaklingsverðlaun. Ég var mjög ánægður með tímann minn þar," sagði Jovanovic.

„Real bauð mér eins árs samning með möguleika á að framlenja hann um eitt ár. Ég bað um fjögurra ára samning en þeir svöruðu nei og því ákvað ég að hafna þeim. Þeir eru kannski stærsta félag í heimi en ég vissi að það kæmi önnur stór félög," sagði Jovanovic.

„Ég mun aldrei fara þangað sem ég fæ ekki að spila alvöru hlutverk. Það er nefnilega miklu betra að vera ánægður þar sem þú spilar og nú bíð ég spenntur eftir því að spila með Liverpool," sagði Jovanovic sem verður væntanlega í sviðsljósinu í kvöld þegar LIverpool spilar fyrri leikinn á móti FK Rabotnicki í forkeppni Evrópudeildarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×