Innlent

Níu manns sagt upp störfum

Þjóðleikhúsið Dregið verður úr umfangi starfseminnar vegna 10 prósent skerðingar á framlögum á fjárlögum.
Þjóðleikhúsið Dregið verður úr umfangi starfseminnar vegna 10 prósent skerðingar á framlögum á fjárlögum.

Þjóðleikhúsið hefur sagt upp níu fastráðnum starfsmönnum. Lækka þarf launakostnað um 14 prósent milli ára vegna tíu prósent skerðingar á framlögum í fjárlagafrumvarpi ársins, að sögn Ara Matthíassonar, framkvæmdastjóra Þjóðleikhússins.

Auk uppsagna verður gripið til annarra aðhaldsaðgerða til þess að draga úr umfangi starfseminnar. Meðal annars eru greiðslur á fastri yfirvinnu skertar.

„Það að segja upp fólki er auðvitað það sársaukafyllsta og mest íþyngjandi sem þarf að gera,“ sagði Ari og lagði áherslu á að leitað hefði verið allra leiða til að halda uppsögnum í lágmarki og spara aðra kostnaðarliði, ekki síst stjórnunarkostnað.

Engir leikarar eru meðal þeirra sem nú var sagt upp. Fastráðnum leikurum hefur fækkað mjög síðustu ár, að sögn Ara. Flestir leikarar eru nú annað hvort ráðnir til eins leikárs í senn eða til einstakra verkefna.

Ekki verða breytingar á samningum leikara á þessu leikári. Ari vildi ekki veita nánari upplýsingar um hvernig uppsagnir dreifast á deildir Þjóðleikhússins.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins hafa fjórir þeirra sem sagt var upp starfað í markaðs- og kynningardeild. - pg




Fleiri fréttir

Sjá meira


×