Innlent

Sex ráðherrar vilja aðskilnað ríkis og kirkju

úrsagnir hjá þjóðskrá Hundruð hafa lagt leið sína til Þjóðskrár á síðustu tveimur dögum til að skrá sig úr þjóðkirkjunni. fréttablaðið/gva
úrsagnir hjá þjóðskrá Hundruð hafa lagt leið sína til Þjóðskrár á síðustu tveimur dögum til að skrá sig úr þjóðkirkjunni. fréttablaðið/gva

Helmingur ríkisstjórnarinnar vill aðskilnað ríkis og kirkju. Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagðist íhuga að segja sig úr þjóðkirkjunni á blaðamannafundi að loknum ríkisstjórnarfundi í gær en vildi þó ekki gefa upp hvort það væri í ljósi atburða síðustu daga.

Forsætisráðherra vill vinna að aðskilnaði ríkis og kirkju, líkt og Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra, Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra, og Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra.

Hvorki utanríkisráðherra né mennta- og menningarmálaráðherra eru skráð í þjóðkirkjuna. Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra eru það hins vegar bæði og segjast hvorugt hafa íhugað að skrá sig úr henni.

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, vildi ekki svara spurningum blaðamanns um efnið.

Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og Ragna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra, vilja bæði halda ríki og kirkju sameinuðum.

Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra segir spurninguna varða hennar einkamál og vildi ekki gefa upp hvort hún sé skráð í þjóðkirkjuna. Árni Páll Árnason, félags- og tryggingamálaráðherra, er hlynntur sjálfstæði kirkjunnar. Árni Páll hefur ekki íhugað að skrá sig úr þjóðkirkjunni.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segist hafa efasemdir um aðskilnað en hún hafi reglulega íhugað að skrá sig úr þjóðkirkjunni. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×