Innlent

Notkun aukist um helming

Rannsókn Unnið er að úttekt á rítalínnotkun, og eru niðurstöður væntanlegar bráðlega segir Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.
Fréttablaðið/Stefán
Rannsókn Unnið er að úttekt á rítalínnotkun, og eru niðurstöður væntanlegar bráðlega segir Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra. Fréttablaðið/Stefán

Notkun rítalíns og annarra lyfja sem notuð eru við athyglisbresti og ofvirkni, ADHD, hefur aukist um helming milli áranna 2006 og 2009 samkvæmt upplýsingum frá Sjúkratryggingum Íslands.

Íslendingar notuðu tæplega 1,7 milljónir dagskammta af lyfjunum á síðasta ári, en notuðu um 1,1 milljón skammta árið 2006.

Kostnaður sjúkratrygginga vegna lyfjanna stefnir í 762 milljónir króna á árinu, miðað við kostnað fyrstu sex mánuði ársins. Kostnaðurinn hefur nær þrefaldast frá 2006, en hafa verður í huga að gengisfall krónunnar hefur haft áhrif á kostnaðinn.

Um 2.700 börn og unglingar yngri en 20 ára fengu ávísað rítalíni á síðasta ári, og um 1.500 fullorðnir 20 ára eða eldri. Notkun á rítalíni hefur aukist um 51 prósent frá árinu 2006 án þess að dregið hafi úr notkun á öðrum sambærilegum lyfjum. Mest er aukningin hjá fullorðnum.

„Ég hef látið fara fram athugun á rítalínnotkun undanfarnar vikur og ég á von á því að það dragi til tíðinda í þeim málum fyrir mánaðamót," segir Álfheiður Ingadóttir heilbrigðisráðherra.

Hún segir notkun þessara lyfja margfalt meiri hér á landi en í nágrannalöndunum. Þá sé áhyggjuefni að lyfið sé notað sem fíkniefni og selt á götunni. „Það er klárt að það þarf að grípa til aðgerða. Landlæknir er að skoða hvað hann getur gert og ég er að skoða hvað ég get gert."- bj, þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×