Enski boltinn

Defoe fór í ökklaaðgerð og verður frá í þrjá mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Harry Redknapp verður án Jermain Defoe þangað til í desember.
Harry Redknapp verður án Jermain Defoe þangað til í desember. Mynd/AP
Tottenham er nú búið að fá slæmar fréttir af framherja sínum Jermain Defoe þrjá daga í röð. Hann meiddist í leik með enska landsliðinu á þriðjudag, á miðvikudaginn var talið að hann yrði frá í sex vikur en í gær kom í ljós að hann þurfti að fara í aðgerð og verður frá í þrjá mánuði.

Jermain Defoe meiddist á ökkla í 3-1 sigri Englendinga á Sviss og Harry Redknapp, stjóri Tottenham, vonaðist til að hann yrði klár innan sex vikna. Við nánari skoðun þurfti hann hinsvegar á aðgerð að halda til þess að laga liðbönd á hægri ökkla.

Jermain Defoe gæti náð að spila á móti Chelsea 11. desember en þá væri hann búinn að missa af þrettán leikjum í ensku úrvalsdeildinni og allri riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Þetta er mikið áfall fyrir bæði Tottenham og Jermain Defoe en framherjinn snöggi var búinn að vera sjóðheitur að undanförnu og skoraði meðal annars þrennu í stórsigri Englendinga á Ungverjum fyrir viku.

Tottenham mun því treysta á Peter Crouch, Roman Pavlyuchenko og Robbie Keane í Meistaradeildinni á meðan enska landsliðið mun nota Peter Crouch, Bobby Zamora eða Darren Bent.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×