Erlent

Segir trúnaðarbrest skýra brottrekstur

Júrí Luzhkov
Júrí Luzhkov

Dmitrí Medvedev Rússlandsforseti hefur rekið Júrí Luzhkov, borgarstjóra Moskvu. Medvedev sagði trúnaðarbrest vera skýringuna á brottrekstrinum.

Brottreksturinn er sagður hafa legið lengi í loftinu, en Luzhkov þáði ekki boð um að segja af sér sjálfur.

Luzhkov, sem er 74 ára, hefur verið borgarstjóri Moskvu í 18 ár. Það var þáverandi forseti, Boris Jeltsín, sem fékk hann fyrst í embættið. Þeim kom vel saman, en stirðara var á milli hans og Vladimírs Pútíns, sem var forseti Rússlands 2000 til 2008.

Pútín umbar engu að síður Luzhkov, enda var borgarstjórinn duglegur og kraftmikill, sem virtist henta vel umdeildum stjórnstíl Pútíns.

Dugnaður Luzhkovs birtist meðal annars í því að hann gerði borgina nútímalegri, lét endurnýja og fegra götur og hús og naut fyrir vikið mikilla vinsælda meðal almennings.

Þessar vinsældir öfluðu einnig stjórnarflokknum, Sameinuðu Rússlandi, verulegs fylgis í þingkosningum, enda var Luzhkov einn af stofnendum flokksins. Af þessum sökum hafa stjórnvöld landsins ekki viljað hrófla við honum fyrr en nú.

Á hinn bóginn hefur hann verið sakaður um að misnota embættið til að auðgast persónulega, og eiginkona hans reyndar sögð enn grófari í þeim efnum. Hann aflaði sér einnig mikilla óvinsælda í sumar, þegar eldarnir miklu geisuðu í næsta nágrenni Moskvu og kæfðu borgarbúa í reyk, því Luzhkov var á ferðalagi í Austurríki og sá ekki ástæðu til að flýta för sinni heim.

Luzhkov hafði einnig slæmt orð á sér vegna þeirrar hörku sem hann hefur jafnan sýnt samkynhneigðum. Hann hefur ítrekað bannað þeim að halda gleðigöngur á götum Moskvu og farið ófögrum orðum um samkynhneigð.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×