Innlent

Össur hlynntur þjóðstjórn

Vel kemur til greina að koma á þjóðstjórn til að ná betur utan um þau vandamál sem steðja að íslensku samfélagi, og til að koma til móts við kröfur þjóðarinnar um breytt vinnubrögð stjórnmálamanna, segir Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.

„Ég er þingræðissinni og vil efla veg þingsins. Ég er æ meira að verða þeirrar skoðunar að mál eigi að leiða til lykta í samráði stjórnar og stjórnarandstöðu," segir Össur. Hann segir samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu í Icesave-málinu hafa sýnt fram á að samstarf allra flokka geti verið heppilegt stjórnar-form.

„Ég vildi gjarnan sjá miklu meira samstarf milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Mér finnst vel koma til greina að menn skoði þann kost að koma á þjóðstjórn til þess að ná betur utan um ýmis vandamál, og til að gera þjóðina sáttari. Þetta er stjórnarform sem reynslan úr Icesave-málinu í vetur hefur gert fýsilegra í mínum augum," segir Össur.Hann segir að lesa megi úr niðurstöðum nýafstaðinna sveitarstjórnarkosninga áhuga fólks á nýjum vinnubrögðum í íslenskum stjórnmálum. Þjóðstjórn væri breyting sem myndi hafa í för með sér gerbreytingu á störfum stjórnvalda og Alþingis.

Davíð Oddsson, þáverandi Seðlabankastjóri, lagði það til á fundi með ríkisstjórninni skömmu eftir hrunið haustið 2008 að stofnað yrði til þjóðstjórnar. Aðspurður segir Össur líklegt að það hafi ekki hjálpað þeirri hugmynd að Davíð Oddsson hafi nánast ruðst inn á ríkisstjórnarfund og skellt henni á borðið. Það hafi þó varla vakað fyrir Davíð að vinna gegn því að þjóðstjórn gæti orðið að veruleika með því að leggja tillöguna fram, enda telur Össur að Davíð hafi á þeim tíma séð sjálfan sig sem forsætisráðherraefni á nýjan leik.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×