Nú er keppni lokið á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem fram fór í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal um helgina. FH fór með sigur af hólmi í karlaflokki með 12.023 stig en ÍR vann í kvennaflokki með 18.608 stig.
ÍR vann svo sameiginlegu stigakeppnina með miklum yfirburðum og var með 30.327 stig, Fjölnir var í öðru með 18.459 stig og FH í þriðja með 15.818 stig.
Óðinn Björn Þorsteinsson úr FH fékk sérstök heiðursverðlaun fyrir afrek sitt í kúluvarpi þegar hann kastaði kúlunni 18,21 metra og Helga Margrét Þorsteinsdóttir úr Ármanni fékk heiðursverðlaun fyrir sigur sinn í 400 metra hlaupi en hún hljóp á 55,52 sekúndum.
Engin Íslandsmet féllu um helgina en nokkur aldursflokkamet voru þó sett.