Innlent

Afla á ríkissjóði aukinna tekna með nýjum, hærri og breyttum sköttum

Steingrímur J. Sigfússon.
Steingrímur J. Sigfússon.

Taka á upp bankaskatt, hækka fjármagns-, fyrirtækja- og erfðafjárskatt og breyta ýmsum öðrum sköttum og opinberum gjöldum til að afla ríkissjóði ellefu milljarða í nýjar tekjur á næsta ári.

Ekki á að hrófla við tekjuskatti, virðisaukaskatti eða tryggingagjaldi.

Áætlað er að heildartekjur ríkissjóðs verði 477 milljarðar á næsta ári, og aukist um rúma 24 milljarða frá þessu ári, að frátöldum óreglulegum liðum.

Bankaskatturinn verður innleiddur að bresk-sænskri fyrirmynd með sambærilegum skatthlutföllum og þar tíðkast.

Erfðafjárskatturinn verður tvöfaldaður, en frítekjumarkið verður hækkað í leiðinni.

„Við erum með einhvern lægsta og flatasta erfðafjárskatt sem finnst á byggðu bóli og teljum ekki óeðlilegt að hann sé færður eitthvað upp í áttina að því sem gerist í öðrum löndum þar sem hann er lægstur," sagði Steingrímur við kynningu fjárlaganna í gær.

Þá stendur til að breyta útfærslu auðlegðarskatts, - eignaskatts á stóreignafólk - hlutfall hans og afmörkun fjárhæða.

Ná á 1,3 milljörðum í auknar tekjur með breytingum á áfengis- og tóbaksgjaldi og jafnvel einnig fyrirkomulagi fríhafnarverslunar.

Farið verður í kerfisbreytingar á bifreiðagjöldum sem miða að því að færa alla skattlagningu yfir á losun. Breytingin mun skila lítilsháttar tekjuaukningu, en Steingrímur segir að sjónarmið um kerfisbreytingu búi einkum að baki.

Að síðustu fær fólk heimild til úttektar úr séreignarsjóðum og þarf að greiða tekjuskatt af þeim úttektum. Áætlað er að það skili ríkissjóði þremur milljörðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×