Það var skiljanlega ekki auðvelt fyrir Jose Mourinho að kveðja leikmenn og samstarfsmenn sína hjá Internazionale eftir sigurinn í Meistaradeildinni um síðustu helgi. Mourinho er á leiðinni til Real Madrid þrátt fyrir að allir hafi grátbeðið hann um að vera áfram hjá Inter.
Það er þó óhætt að segja að það hafi verið sannkallað tilfinninga- og tára-flóð þegar Mourinho kvaddi Marco Materazzi. Marco Materazzi sagðist hafa reynt að fá Mourinho til að halda áfram þegar portúgalski þjálfarinn var að skipta honum inn á í uppbótartíma úrslitaleiksins. Það var þó aðeins upphitun fyrir samtal þeirra þegar komið var að brottför Mourinho.
Það var tilfinningarík kveðjustund hjá Mourinho og Materazzi þegar portúgalski þjálfarinn var að yfirgefa Santiago Bernabeu. Mourinho er búinn að kveðja alla og sestur inn í aftursæti bílsins síns þegar hann sér Marco Materazzi útundan sér. Mourinho lætur stoppa bílinn og hleypur til ítalska varnartröllsins.
Marco Materazzi og Jose Mourinho fallast síðan í faðma og gráta á öxl hvors annars. Mourinho snýr síðan hágrátandi aftur í bílinn og keyrir burtu. Það má sjá þetta myndband á Youtube eða með því að smella hér.
Fótbolti