Viðskipti erlent

Vilja losunargjöld á beljufreti í Danmörku

Danskir kúabændur standa nú frammi fyrir því að þurfa að borga losunargjöld af metanfretunum frá nautgripum sínum. Þetta er nauðsynlegt til að Danmörk nái markmiðum sínum um losun gróðurhúsalofttegunda (CO2) fyrir árið 2020.

Fjallað er um málið á börsen.dk. Þar segir að metan sé öflug gastegund enda 21 sinnum sterkari en koltvíoxíð. Metangasið sígur út í andrúmsloftið í fretum og ropum nautgripanna.

Danmörkur hefur skuldbundið sig til þess að skera CO2 losun sína frá landbúnaði, samgöngum og heimilumum um 20% fram til ársins 2020, það er þá losun sem ekki fellur innan ramma ESB um kvótasölu á losuninni.

Samkvæmt útreikningum frá Umhverfishagráði landsins (Det Miljöökonomiske Råd) mun fyrrgreind losun aðeins ná 5% af markmiðum Danmerkur fram til 2020 miðað við óbreyttar aðstæður. Þess vegna muni landið skorta sem nemur sex milljónum tonna af CO2 til að ná takmarki sínu.

Þess vegna leggur ráðið til að losunargjöld vegna CO2 nái einnig til annarra gastegunda eins og metan. En það mun ekki duga til og Danmörk mun þurfa að kaupa CO2 kvóta frá öðrum Evrópulöndum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×