Viðskipti erlent

Iceland er 13. stærsta einkafyrirtæki Bretlands

Verslunarkeðjan Iceland heldur sæti sínu sem 13. stærsta einkafyrirtæki Bretlands á nýjum Top Track 100 lista Deloitte yfir stærstu einkafyrirtæki Bretlands. Fjallað er um listann í Sunday Times og Wales Online en höfuðstöðvar Iceland eru í Flintshire í Wales.

Sem kunnugt er af fréttum er Iceland að mestu í eigu íslenskra aðila. Þar af heldur skilanefnd Landsbankans á 67% hlut og Glitnir á 10% hlut. Methagnaður varð af rekstri Iceland á síðasta reikningsári keðjunnar sem lauk í lok mars s.l. Veltan jókst um 9% á árinu og nam tæpum 2,3 milljörðum punda. Hagnaðurinn jókst um 12% og nam 135,4 milljónum punda fyrir skatta eða um 25,5 milljörðum kr.

Malcolm Walker forstjóri Iceland segir að þeir séu hæstánægðir með að hafa haldið stöðu sinni á Top Track listanum og að þeir séu stærsta einkafyrirtækið sem er til heimilis í Wales. Sterk staða Iceland á markaðinum hafi hjálpað því að komast í gegnum kreppuna án áfalla og gert það að verkum að vöxtur keðjunnar hélt áfram í fyrra, fimmta árið í röð.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×