Innlent

Segir rangt að ráðuneyti neiti vinnu

Upplýsingafulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins segir alrangt að ráðuneytið hafi neitað að vinna að aðildarviðræðum stjórnvalda við ESB. Það er í mótsögn við ummæli formanns Bændasamtakanna.

Í Fréttablaðinu var nýlega haft eftir formanni samninganefndar Íslands að samtökin hefðu ekki viljað sitja fund um landbúnaðarmál sem fór fram í Brussel og það hefði veikt stöðu nefndarinnar.

Í blaðinu á þriðjudag vísaði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, því hins vegar á bug og sagði samtökin hafa tekið að sér verk í tengslum við aðildarviðræðurnar, sem hefði í raun átt að vera á könnu ráðuneytisins.

„Ráðuneytið neitar allri vinnu en ber raunverulega ábyrgð á að fylgja eftir hagsmunum atvinnuvegarins, ekki við,“ sagði hann.

Bjarni Harðarson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, sagði í svari við fyrirspurn Fréttablaðsins að ráðuneytið hefði ekki „neitað allri vinnu“ eins og Haraldur sagði.

„Nei, það er alrangt og ég hef ekki trú á að talsmaður bænda hafi haldið því fram í viðtali við blaðið. Vinna ráðuneytisins að þessum málum liggur meðal annars í margs konar rýnivinnu og fundahöldum með innlendum og erlendum aðilum.“ - þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×