Innlent

Starfsmenn sælir með styrk

D-vaktin Tólfmenningarnir á D-vaktinni hjá Norðuráli höfðu safnað 176 þúsund krónum í starfsmannasjóð og gáfu þær allar til Mæðrastyrksnefndar Akraness frekar en að skemmta sér fyrir upphæðina.
D-vaktin Tólfmenningarnir á D-vaktinni hjá Norðuráli höfðu safnað 176 þúsund krónum í starfsmannasjóð og gáfu þær allar til Mæðrastyrksnefndar Akraness frekar en að skemmta sér fyrir upphæðina.

„Okkur finnst þetta öllum hið besta mál og skorum á fleiri að gera slíkt hið sama,“ segir Eiríkur Kristófersson, starfsmaður á D-vakt í steypuskálanum hjá Norðuráli á Grundartanga. D-vaktin gaf allan starfsmannasjóðinn til góðgerðamála.

Tólf manns eru á D-vaktinni, ellefu karlar og ein kona. Öll greiða þau eitt þúsund krónur á mánuði í starfsmannasjóð. Fyrir stuttu stóð sjóðurinn í 176 þúsund krónum.

„Venjulega höfum við notað þessa peninga þegar við förum út að skemmta okkur, í menningarferðir eins og við köllum þær. Í þetta skipti vildum við leyfa einhverjum öðrum að njóta þeirra og gefa bara sjóðinn,“ segir Eiríkur, sem kveður hópinn hafa ákveðið að færa Mæðrastyrksnefnd Akraness allan sjóðinn.

Eiríkur kveður gjöf hópsins hafa verið vel tekið af Anitu Björk Gunnarsdóttur, formanni Mæðrastyrksnefndarinnar.

„Anita sagði okkur að um 150 fjölskyldur hefðu fengið aðstoð hjá þeim fyrir síðustu jól bara á Akranesi. Maður kom alveg af fjöllum að heyra um þennan fjölda. Við erum alsæl með það að hafa gefið peningana á þennan stað,“ segir Eiríkur Kristófersson.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×