Innlent

Vilja geta selt hingað landbúnaðarvörur

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson

Fjórir þingmenn vilja að utanríkisráðherra óski eftir viðræðum við ríkisstjórn Bandaríkjanna um tvíhliða fríverslunarsamning milli ríkjanna.

Þau Birgir Þórarinsson, Ragnheiður Elín Árnadóttir, Jón Gunnarsson og Ásmundur Einar Daðason lögðu fram þingsályktunartillögu þess efnis á þriðjudag.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þessi hugmynd kemur fram á þingi. Möguleikar á þessu hafa áður verið kannaðir, bæði á vettvangi EFTA og í beinum viðræðum við bandarísk stjórnvöld.

Málið var síðast rætt á Alþingi fyrir tæpu ári, en þá svaraði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra því til að niðurstaðan af slíkum athugunum hafi jafnan verið á þá leið að slíkt þyki ekki fýsilegt, bæði vegna þess að Bandaríkin hafi ekki sýnt neinn áhuga á tvíhliða fríverslunarsamningi við Ísland, en einnig vegna þess að Bandaríkin hafi gefið skýrt til kynna „að forsenda fríverslunarsamnings væri sú að markaðsaðgangur fyrir landbúnaðarvörur, þar með taldar viðkvæmar landbúnaðarvörur, svo sem kjöt og mjólkurvörur, yrði bættur mjög verulega frá því sem nú er“.

Ásmundur Einar Daðason

Fyrir nokkrum árum reyndu Svisslendingar að semja við Bandaríkin um tvíhliða fríverslunarsamning, en án árangurs, vegna þess að Svisslendingar sættu sig ekki við kröfur Bandaríkjanna um frjáls viðskipti með landbúnaðarvörur.

„Auðvitað eru víða hindranir í vegi svona samninga,“ segir Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Vinstri grænna, og einn af fjórum flutningsmönnum tillögunnar. Hann telur þó enga ástæðu til að láta þær hindranir koma í veg fyrir að menn reyni eins og hægt er að ná samningum.

„Eru ekki sams konar hindranir gagnvart Evrópusambandinu? Meginhugmyndin er einfaldlega sú að við Íslendingar eigum að horfa út fyrir rammann og ekki einblína á Evrópusambandið.“ - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×