Innlent

Hrikalegt áfall segir nemandi

Útstillingar Í námi í útstillingum í Iðnskólanum í Hafnarfirði læra nemendur að stilla upp vörum í búðargluggum.
Fréttablaðið/Stefán
Útstillingar Í námi í útstillingum í Iðnskólanum í Hafnarfirði læra nemendur að stilla upp vörum í búðargluggum. Fréttablaðið/Stefán

Fimm nemendur sem til stóð að útskrifuðust af útstillingabraut Iðnskólans í Hafnarfirði hafa óskað eftir fundi með menntamálaráðherra til að ræða þá ákvörðun stjórnenda skólans að leggja námið niður án fyrirvara frá áramótum.

„Það er bara svakalegt ef þessi ákvörðun fær að standa,“ segir Sigríður Jóhannsdóttir, nemandi á útstillingabraut.

„Þetta er hrikalegt áfall, við erum búin að eyða einu og hálfu ári í þetta nám,“ segir Sigríður. Nemendur í útstillingum fengu á Þorláksmessu bréf frá stjórnendum skólans þar sem tilkynnt var að námið yrði fellt niður.

Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, segir að fundað verði með nemendunum vegna málsins í vikunni. Ráðuneytið hefur kallað eftir upplýsingum frá skólanum um málið en hefur ekki fengið svör. Elías ítrekar það sem haft var eftir honum í Fréttablaðinu fyrir síðustu helgi að nemendur eigi rétt á því að ljúka því námi sem þeir séu byrjaðir á.

Í stuttu samtali við Fréttablaðið í gær sagðist Jóhannes Einarsson, skólameistari Iðnskólans í Hafnarfirði, ekki vilja skýra frekar þá ákvörðun að leggja námið niður. Jóhannes lætur af störfum fyrir aldurs sakir um áramót. Nýr skólameistari verður skipaður fyrir vikulok. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×