Fótbolti

Kristianstad tapaði fyrir meisturunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Margrét Lára Viðarsdóttir í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Vilhelm

Heil umferð fór fram í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í kvöld. Kristianstad, lið Elísabetar Gunnarsdóttur, tapaði fyrir meisturum Linköping á útivelli, 3-0.

Margrét Lára Viðarsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Erla Steina Arnardóttir voru allar í byrjunarliði Kristianstad en sú fyrstnefnda var tekin af velli þegar stundarfjórðungur var til leiksloka.

Topplið Malmö vann öruggan 4-1 sigur á nýliðum Tyresö á heimavelli. Þóra B. Helgadóttir var í marki Malmö en Dóra Stefánsdóttir er enn frá vegna meiðsla.

Þá gerðu Örebro og Sunnanå markalaust jafntefli. Ólína Guðbjörg Viðarsdóttir var í byrjunarliði Örebro en Edda Garðarsdóttir tók út leikbann í leiknum.

Guðbjörg Gunnarsdóttir stóð í marki Djurgården sem tapaði fyrir Kopparberg/Göteborg á útivelli, 1-0.

Malmö er sem fyrr segir í efsta sæti deildarinnar en liðið er með 28 stig, fjórum meira en Kopparberg/Göteborg sem er í öðru sæti. Kristianstad er í fjórða sæti með sautján stig og Örebro í því sjötta með fimmtán. Djurgården er svo í tíunda sæti með sex stig.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×