Viðskipti erlent

Saudi Arabar fjármagna flesta hryðjuverkamenn

Saudi Arabía er það land í heiminum sem veitir fjármagni til flestra íslamskra hryðjuverkahópa eins og Talibana og Laskhar-e-Taiba í Pakistan.

Fjallað er um málið í Guardian sem aftur vitnar í Wikileaks. Þar kemur fram að samkvæmt Hillary Clinton utanríkisráðráðherra Bandaríkjanna þráist stjórnvöld í Saudi Arabíu við að stöðva þetta peningaflæði út úr landinu.

Í leyniskjali frá því í fyrra kemur fram að efnaðir íhaldssamir Saudi Arabar séu helstu fjárhagslegu bakhjarlar Talibana í Afganistan og þeirra hópa í Pakistan sem reyna að grafa undan þarlendum stjórnvöldum.

Auk fyrrgreindra samtaka eru al-kaída einnig nefnd til sögunnar sem þiggjendur fjárstuðnings frá Saudi Aröbum.

Í Saudi Arabíu gerast kaupin þannig á eyrinni að fulltrúar hryðjuverkasamtaka smygla sér inn í landið sem pílagrímar. Þegar þangað er komið koma þeir sér upp skúffufyrirtækjum til að stunda peningaþvætti eða taka við fjárframlögum frá góðgerðarsamtökum sem eru saudi arabískum stjórnvöldum þóknanleg.

Laskhar-e-Taiba, sem stóð að hryðjuverkaárásinni í Mumbai árið 2008, fjármagnaði aðgerðir sínar árið 2005 í gegnum skúffufyrirtæki í Saudi Arabíu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×