Spænska stórliðið Real Madrid vill fá Jose Mourinho, þjálfara Inter, til að taka við stjórnartaumunum í sumar samkvæmt þarlendum fjölmiðlum. Talið er að Manuel Pellegrini verði látinn fara eftir tímabilið.
Florentino Perez hefur mikið álit á Mourinho og reyndi að fá hann síðasta sumar. Mourinho notfærði sér hinsvegar áhuga félagsins til að fá nýjan og endurbættan samning hjá Inter.
Mourinho hefur verið mikið í umræðunni í vetur og átt í hörðum deilum við ýmsa, þar á meðal eigin leikmenn og fjölmiðla á Ítalíu. Hann hefur oft talað um það markmið sitt að verða fyrsti þjálfarinn til að skila landsmeistaratitli á Englandi, Ítalíu og Spáni.
Hann hefur þegar gert Chelsea og Inter að meisturum en á nú eftir að fullkomna þrennuna og landa spænska meistaratitlinum.