Langdræg neyðarráð Þorvaldur Gylfason skrifar 15. júlí 2010 06:30 Neyðarráðstafanir eiga að vera skammvinnar. Það liggur í hlutarins eðli, því að neyð er í eðli sínu tímabundið ástand. Neyðin kennir naktri konu að spinna, segir máltækið. Íslenzk neyðarráð hafa þó sum enzt lengi. Sumir gera út á þau og hagnast á þeim á kostnað almennings. InnflutningsbannByrjum í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Innflutnings- og gjaldeyrishöft voru tekin upp í reglugerð 1931 í skjóli eldri heimilda í lögum. Þetta var gert meðal annars til að hlífa bændum við verðfalli búsafurða í útlöndum vegna kreppunnar. Þessi kreppuráðstöfun átti að vera tímabundin. Því var heitið á þingi, að höftunum yrði aflétt, þegar heimsbúskapurinn rétti úr kútnum. Það heit var ekki efnt. Haftasinnum óx ásmegin í millitíðinni, og æ síðan hafa þeir hvorki mátt til þess hugsa né heyra, að höftunum væri lyft til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Enda eru gömlu kreppuhöftin - bann við innfluttu kjöti og ostum nema smáræði við okurverði - að mestu leyti enn við lýði, 80 árum síðar, þótt ótrúlegt sé. Ástandið speglar landlægt skeytingarleysi stjórnmálastéttarinnar um almannahag. Misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu hefur ráðið miklu um þessa niðurstöðu. VerðtryggingAnnað dæmi sömu ættar er verðtryggingin, sem var leidd í lög af illri nauðsyn 1979. Vandinn var sá, að verðbólgan æddi áfram og át upp sparifé almennings, sem fékk engum vörnum við komið öðrum en að reyna að forða sparifé sínu með því að eyða öllu tiltæku fé og kynda þannig enn frekar undir verðbólgu. Verðtryggingu fjárskuldbindinga var ætlað að verja sparifé landsmanna og skapa með því móti skilyrði til að hemja verðbólgu og gera verðtryggingu óþarfa. Raunar kemur ekki fram í gögnum málsins á Alþingi, að verðtryggingu væri ætlað að vera tímabundin, trúlega af því að það þótti svo sjálfsagt, að ekki þurfti að taka það fram. Verðtrygging veitti lánveitendum langþráð skjól og skerti getu gömlu ríkisbankanna til að skammta lánsfé. Sumir telja verðtryggingu allra fjárskuldbindinga æskilega undir öllum kringumstæðum, svo að sparifé almennings haldi ávallt verðgildi sínu. Aðrir líta svo á, að almenn verðtrygging dragi úr aðlögunarhæfni hagkerfisins líkt og vísitölubinding launa, sem að fenginni reynslu var bönnuð með lögum um tíma, og komi því ekki til greina sem varanleg skipan, en þá þarf að halda verðbólgu í skefjum. Mikil verðbólga með gamla laginu án víðtækrar verðtryggingar kemur ekki lengur til álita. Nú, röskum 30 árum eftir að verðtrygging fjárskuldbindinga var leidd í lög, er hún enn á sínum stað. Hvers vegna? Það stafar af því, að stjórnvöldum hefur ekki tekizt að hemja verðbólguna nóg til þess, að óhætt þyki að hverfa frá notkun verðtryggingar í fjármálaviðskiptum. Verðtryggingin eyddi sumum alvarlegustu afleiðingum verðbólgunnar og dró um leið úr áhuga stjórnvalda á að kveða verðbólguna niður. Því má segja, að verðtryggingin hafi orðið til þess að viðhalda verðbólgunni. Íslendingar búa enn sem jafnan fyrr við mesta verðbólgu í Evrópu að Tyrkjum einum undanskildum og það í kreppu. Efnahagsáætlun stjórnvalda í samstarfi við Alþjóðgjaldeyrissjóðinn og Norðurlönd er ætlað að ná verðbólgunni niður á ný. Mikil verðbólga er alls staðar og ævinlega til marks um vonda hagstjórn og veika innviði. Gjaldeyrishöft Þegar neyðarlögin voru sett eftir hrun bankanna 2008, var ráð fyrir því gert, að gjaldeyrishöftin yrðu tímabundin. Höftin voru neyðarráðstöfun, enda samrýmast þau hvorki góðum hagstjórnarháttum né aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Höftin áttu að standa í tvö ár eða þar um bil. Sá tími er nú að mestu liðinn, en ekki bólar þó enn á afnámi haftanna. Hvers vegna ekki? Það stafar af því, að ríkisstjórnin hefur ekki megnað að gera það, sem gera þarf, til að hægt sé að afnema höftin. Þar munar mest um tafirnar á afgreiðslu IceSave-málsins og þá um leið á framgangi efnahagsáætlunar stjórnvalda. Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni komið sér saman um að fækka ráðuneytum úr tólf í níu, svo sjálfsagt sem það er og reyndar ekki nóg, því að ráðuneytin þyrftu ekki að vera nema sjö eða átta eins og ég lýsti hér í blaðinu 31. maí 2007. Hvernig ætti svo veikri ríkisstjórn þá að takast að koma sér saman um mun erfiðari umbætur, sem þarf til að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin? Hvaða peningastefnu ætla stjórnvöld sér að fylgja til að tryggja stöðugt verðlag og laða tortryggið fjármagn á ný að landinu? Spurningin er brýn, því að peningastefnan er enn hin sama og fyrir hrun, þótt hún hafi beðið skipbrot. Spurningunni er enn ósvarað. Ef höftin festast í sessi og annað verður eftir því, verður Ísland eftirbátur Norðurlanda. Þess getur þá orðið langt að bíða, að Íslendingar standi aftur jafnfætis Dönum í efnahagslegu tilliti. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Sjálfstæðismenn boða víst skattalækkanir á þá efnamestu Haukur V. Alfreðsson Skoðun Almageddon? Eyþór Kristleifsson Skoðun Viltu borga 200 þús á mánuði eða 600 þús á mánuði af íbúðinni? Hildur Þórðardóttir Skoðun Fellur helsti stuðningsmaður menningarmála af þingi? Magnús Logi Kristinsson Skoðun Það sem ekki má fjalla um fyrir kosningar til Alþingis Árni Jensson Skoðun ESB kærir sig ekkert um Ísland í jólagjöf Ole Anton Bieltvedt Skoðun Óstjórn í húsnæðismálum Ragnar Þór Ingólfsson Skoðun Betri Strætó 2025 og (svo) Borgarlína Dagur B. Eggertsson Skoðun Afvegaleidd umræða um áskoranir heilbrigðiskerfisins Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir Skoðun Vímuefnið VONÍUM Haraldur Ingi Haraldsson Skoðun
Neyðarráðstafanir eiga að vera skammvinnar. Það liggur í hlutarins eðli, því að neyð er í eðli sínu tímabundið ástand. Neyðin kennir naktri konu að spinna, segir máltækið. Íslenzk neyðarráð hafa þó sum enzt lengi. Sumir gera út á þau og hagnast á þeim á kostnað almennings. InnflutningsbannByrjum í kreppunni miklu á fjórða áratug síðustu aldar. Innflutnings- og gjaldeyrishöft voru tekin upp í reglugerð 1931 í skjóli eldri heimilda í lögum. Þetta var gert meðal annars til að hlífa bændum við verðfalli búsafurða í útlöndum vegna kreppunnar. Þessi kreppuráðstöfun átti að vera tímabundin. Því var heitið á þingi, að höftunum yrði aflétt, þegar heimsbúskapurinn rétti úr kútnum. Það heit var ekki efnt. Haftasinnum óx ásmegin í millitíðinni, og æ síðan hafa þeir hvorki mátt til þess hugsa né heyra, að höftunum væri lyft til hagsbóta fyrir fólkið í landinu. Enda eru gömlu kreppuhöftin - bann við innfluttu kjöti og ostum nema smáræði við okurverði - að mestu leyti enn við lýði, 80 árum síðar, þótt ótrúlegt sé. Ástandið speglar landlægt skeytingarleysi stjórnmálastéttarinnar um almannahag. Misvægi atkvæðisréttar eftir búsetu hefur ráðið miklu um þessa niðurstöðu. VerðtryggingAnnað dæmi sömu ættar er verðtryggingin, sem var leidd í lög af illri nauðsyn 1979. Vandinn var sá, að verðbólgan æddi áfram og át upp sparifé almennings, sem fékk engum vörnum við komið öðrum en að reyna að forða sparifé sínu með því að eyða öllu tiltæku fé og kynda þannig enn frekar undir verðbólgu. Verðtryggingu fjárskuldbindinga var ætlað að verja sparifé landsmanna og skapa með því móti skilyrði til að hemja verðbólgu og gera verðtryggingu óþarfa. Raunar kemur ekki fram í gögnum málsins á Alþingi, að verðtryggingu væri ætlað að vera tímabundin, trúlega af því að það þótti svo sjálfsagt, að ekki þurfti að taka það fram. Verðtrygging veitti lánveitendum langþráð skjól og skerti getu gömlu ríkisbankanna til að skammta lánsfé. Sumir telja verðtryggingu allra fjárskuldbindinga æskilega undir öllum kringumstæðum, svo að sparifé almennings haldi ávallt verðgildi sínu. Aðrir líta svo á, að almenn verðtrygging dragi úr aðlögunarhæfni hagkerfisins líkt og vísitölubinding launa, sem að fenginni reynslu var bönnuð með lögum um tíma, og komi því ekki til greina sem varanleg skipan, en þá þarf að halda verðbólgu í skefjum. Mikil verðbólga með gamla laginu án víðtækrar verðtryggingar kemur ekki lengur til álita. Nú, röskum 30 árum eftir að verðtrygging fjárskuldbindinga var leidd í lög, er hún enn á sínum stað. Hvers vegna? Það stafar af því, að stjórnvöldum hefur ekki tekizt að hemja verðbólguna nóg til þess, að óhætt þyki að hverfa frá notkun verðtryggingar í fjármálaviðskiptum. Verðtryggingin eyddi sumum alvarlegustu afleiðingum verðbólgunnar og dró um leið úr áhuga stjórnvalda á að kveða verðbólguna niður. Því má segja, að verðtryggingin hafi orðið til þess að viðhalda verðbólgunni. Íslendingar búa enn sem jafnan fyrr við mesta verðbólgu í Evrópu að Tyrkjum einum undanskildum og það í kreppu. Efnahagsáætlun stjórnvalda í samstarfi við Alþjóðgjaldeyrissjóðinn og Norðurlönd er ætlað að ná verðbólgunni niður á ný. Mikil verðbólga er alls staðar og ævinlega til marks um vonda hagstjórn og veika innviði. Gjaldeyrishöft Þegar neyðarlögin voru sett eftir hrun bankanna 2008, var ráð fyrir því gert, að gjaldeyrishöftin yrðu tímabundin. Höftin voru neyðarráðstöfun, enda samrýmast þau hvorki góðum hagstjórnarháttum né aðild Íslands að Evrópska efnahagssvæðinu. Höftin áttu að standa í tvö ár eða þar um bil. Sá tími er nú að mestu liðinn, en ekki bólar þó enn á afnámi haftanna. Hvers vegna ekki? Það stafar af því, að ríkisstjórnin hefur ekki megnað að gera það, sem gera þarf, til að hægt sé að afnema höftin. Þar munar mest um tafirnar á afgreiðslu IceSave-málsins og þá um leið á framgangi efnahagsáætlunar stjórnvalda. Ríkisstjórnin getur ekki einu sinni komið sér saman um að fækka ráðuneytum úr tólf í níu, svo sjálfsagt sem það er og reyndar ekki nóg, því að ráðuneytin þyrftu ekki að vera nema sjö eða átta eins og ég lýsti hér í blaðinu 31. maí 2007. Hvernig ætti svo veikri ríkisstjórn þá að takast að koma sér saman um mun erfiðari umbætur, sem þarf til að hægt sé að afnema gjaldeyrishöftin? Hvaða peningastefnu ætla stjórnvöld sér að fylgja til að tryggja stöðugt verðlag og laða tortryggið fjármagn á ný að landinu? Spurningin er brýn, því að peningastefnan er enn hin sama og fyrir hrun, þótt hún hafi beðið skipbrot. Spurningunni er enn ósvarað. Ef höftin festast í sessi og annað verður eftir því, verður Ísland eftirbátur Norðurlanda. Þess getur þá orðið langt að bíða, að Íslendingar standi aftur jafnfætis Dönum í efnahagslegu tilliti.