Innlent

Fiskveiðiárið gefur forskot

saltfiskverkun Íslendingar eru sveigjanlegri við að uppfylla kröfur kaupenda.
saltfiskverkun Íslendingar eru sveigjanlegri við að uppfylla kröfur kaupenda.

Norðmenn verða af verulegum verðmætum fyrir sjávarafurðir sínar og gætu lært af Íslendingum hvernig á að hlusta eftir þörfum markaðarins. Þetta segir Yannick Forget-Dugaret, forstjóri stærsta framleiðanda og dreifingaraðila ferskra sjávarafurða í Frakklandi. Fyrirtæki hans Pomona, sem er með höfuðstöðvar í Boulogne, rekur 18 dreifingarstöðvar þar í landi.

Haft er eftir Forget-Dugaret á heimasíðu LÍÚ að Norðmenn verði af verulegum verðmætum þar sem þeir veiða nánast allan sinn þorsk á fyrri hluta ársins.

„Við borgum sex evrur á kíló fyrri hluta ársins en verðið fer allt upp í tólf evrur á kíló frá september og fram til ársloka,“ segir hann í viðtali við vefmiðilinn IntraFish.

Lykilatriði er að Norðmenn miða við almanaksárið í fiskveiðistjórn en á Íslandi hefst fiskveiðiárið 1. september. Síðustu mánuði ársins eru Íslendingar og Færeyingar því í góðri stöðu á markaði. Í ofanálag segir Forget-Dugaret Íslendinga sveigjanlegri þegar kemur að því að uppfylla kröfur kaupenda.

Það komi vel í ljós í viðskiptum með saltfiskafurðir, þar sem Norðmenn haldi fast í eigin hefðir og hlusti ekki nægilega eftir þörfum markaðarins. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×