Innlent

Fagfólk skóla virðist vanmeta eineltið

Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.
Myndin er úr safni og tengist ekki fréttinni beint.

Börn sem eiga erlenda foreldra eru helmingi líklegri til að upplifa einelti en þau sem eiga íslenska foreldra. Þetta kemur fram í rannsókn Þórodds Bjarnasonar, prófessors í félagsfræði við Háskólann á Akureyri.

Hins vegar telja rúm 75 prósent fagfólks í grunnskólum að börn sem eru með íslensku sem annað tungumál verði annaðhvort jafnmikið eða minna fyrir einelti en börn sem eiga íslenska foreldra. Einungis 7,5 prósent telja að börn með íslensku sem annað tungumál verði meira fyrir einelti.

Fimmtungur vissi ekki hvort mismunur væri þar á milli. Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar sem gerð var í 122 grunnskólum og ber heitið „Nemendur með íslensku sem annað tungumál í grunnskólum - upplifun fagfólks skólanna," og var gerð af Huldu Karen Daníelsdóttur, Ara Klængi Jónssyni og Hilmu Hólmfríði Sigurðardóttur fyrir hönd Þjónustumiðstöðvar Miðborgar og Hlíða í Reykjavík.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær að almenn ánægja virðist ríkja meðal stjórnenda skóla um aðstæður barna af erlendum uppruna, þó að skýr þörf fyrir fræðslu og þjálfun komi fram.

Í rannsókn Þórodds kemur fram að 16 prósent þeirra nemenda í 10. bekk sem eiga báða foreldra af erlendum uppruna telji sig hafa orðið fyrir einelti, 12 prósent þar sem annað foreldrið er íslenskt og um 8 prósent þeirra þar sem báðir foreldrar eru íslenskir.

Þóroddur segir að þótt börn sem eiga erlenda foreldra séu helmingi líklegri til að upplifa einelti en þau íslensku, sé einelti tiltölulega fátítt á Íslandi miðað við það sem þekkist í öðrum löndum.

„Það þýðir þó ekki að það sé minna alvarlegt," segir Þóroddur. „En langflestir krakkar, hvort sem þeir eru íslenskir eða af erlendum uppruna, segjast ekki verða fyrir einelti, þó svo að þeir síðarnefndu séu helmingi líklegri til þess."

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×