Donald Gelling, fyrrum landstjóri ( chief minister) á eyjunni Mön verður yfirheyrður af sérstakri rannsóknarnefnd þingsins á Mön sem rannsakar nú hrun Singer & Friedlander banka Kaupþings á eyjunni.
Í frétt um málið á BBC kemur fram að Gelling sat í stjórn Singer & Friedlander þegar bankinn komst í þrot í október í fyrra. Hann verður kallaður fyrir þingnefndina ásamt þremur öðrum stjórnarmönnum bankans í næstu viku.
Singer & Friedlander á Mön var tekinn til gjaldþrotaskipta í maí s.l. eftir að kröfuhafar hans höfnuðu samkomulagi um endurgreiðslur frá bankanum.
Á BBC segir ennfremur að þingnefndin muni rannsaka þátt fjármálaeftirlitis eyjarinnar í að verja innistæður eyjaskeggja á reikningum bankans.
Þingnefndin er skipuð þremur mönnum og á að skila niðurstöðum sínum í mars á næsta ári.
Landstjórinn er kosinn af þingi Manar, Tynwald, á fimm ára fresti og er hann æðsta yfirvald eyjarinnar.