Íslenski boltinn

Sandra Sif: Sá að markvörðurinn var ekki tilbúinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Sif Magnúsdóttir var hetja Blika í kvöld.
Sandra Sif Magnúsdóttir var hetja Blika í kvöld.

„Þetta var frábært því við þurftum á þremur stigum að halda," sagði hetja Blika, Sandra Sif Magnúsdóttir, sem skoraði sigurmark Breiðabliks í uppbótartíma eftir baráttuleik á móti Stjörnunni í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

Sandra Sif fékk þá boltann út á kanti og var fljót að átta sig að nafna hennar Sigurðardóttir í Stjörnumarkinu var komin of framarlega. „Maður verður að skjóta þegar maður sér að markvörðurinn er ekki tilbúinn," sagði Sandra og bætti við.

„Ég leit upp fyrst og sá að markvörðurinn var blinduð af sólinni og var að reyna að sjá hvar boltinn var. Það var lítið eftir af leiknum og eina sem ég get gert var að skjóta.

Sandra kom Blikum líka í 1-0 í fyrri hálfleik með lúmsku skoti utan af kanti, en var það skot? "Ég viðurkenni alveg að fyrra markið var fyrirgjöf en maður verður samt að skjóta til að skora," sagði Sandra.

„Við þurftum á þremur stigum að halda úr þessum leik því annars hefðum við verið fjórum stigum á eftir Val," sagði Sandra en Blikaliðið gaf mikið eftir í seinni hálfleik.

„Við förum að verja forskotið í seinni hálfleik og sækjum voðalega lítið. Seinni hálfleikurinn var ekki góður eins og sá fyrri var góður. Þegar þær jafna þá urðum við að sækja því við vissum hvað var í húfi. Þetta hefði verið nánast búið fyrr okkur ef að við værum komnar svona langt á eftir," sagði Sandra Sif.

Það var einn leikmaður Breiðabliksliðsins sem var líklega fegnust að Sandra náði að skora þetta sigurmark. „Fyrirliðinn þakkaði mér líka vel fyrir þetta mark," sagði Sandra en fyrirliði Blika, Erna Björk Sigurðardóttir, gerði mistök og gaf víti sem Stjarnan jafnaði leikinn úr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×