Jón Baldvin Hannibalsson varpaði pólitískri sprengju á fundi Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur í gær þegar hann lýsti því yfir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ætti að axla ábyrgð og víkja sem formaður Samfylkingarinnar. Sjálfur kvaðst Jón Baldvin styðja Jóhönnu Sigurðardóttur til að leiða flokkinn en ef gert yrði einhverskonar systralag til að hylma yfir ábyrgð væri hann tilbúinn að gefa kost á sér til forystu.
Rifjað skal upp að faðir hans, Hannibal Valdimarsson, var 68 ára þegar hann felldi viðreisnarstjórnina árið 1971 með Samtökum frjálslyndra og vinstri manna, en Jón Baldvin verður sjötugur um næstu helgi og sjálfur sagðist hann ekkert of gamall miðað við marga aðra á kratafundinum í gær.
Adenauer hafi verið 69 ára, De Gaulle um áttrætt og Deng Shao Peng, sem hann hafi mikla tröllatrú á, hafi verið um nírætt. "Og gafst vel. Bryndís segir að ég sé við hestaheilsu," sagði Jón Baldvin en tók fram að heimilislæknirinn sinn væri löngu dauður.
Ræðu sinni hjá Alþýðuflokksfélaginu í gær lauk Jón Baldvin þannig:
"Það er framundan stríð. Stríð upp á líf og dauða um örlög þessarar þjóðar. Nú er að duga eða drepast. Þakka ykkur fyrir."