Viðskipti erlent

Royal Unibrew tapaði 10 milljörðum kr.

Dönsku bruggverksmiðjurnar Royal Unibrew töpuðu 483 milljónum danskra kr. á síðasta ári eða tæpum 10 milljörðum kr.. Stoðir eru einn stærsti hluthafinn í Royal Unibrew með 25% hlut.

Samkvæmt umfjöllun í dönskum fjölmiðlum um ársuppgjör Unibrew var það einkum mikill taprekstur í Póllandi sem olli slæmu gengi verksmiðjanna á síðasta ári ásamt almennum samdrætti í fjármálakreppunni.

Stjórn Unibrew hefur ákveðið að segja upp 200 af starfsmönnum sínum vegna stöðunnar, 100 í Danmörku og 100 í Póllandi.

Þá hefur Unibrew einnig ákveðið að afskrifa hluti sína í þremur pólskum brugghúsum og stóran hlut í því fjórða um 455 milljónir danskra kr. eða um 9 milljarða kr..

Henrik Brandt forstjóri Unibrew segir í tilkynningu um uppgjörið að 2008 hafi verið mjög erfitt ár fyrir verksmiðjurnar, svo erfitt að stjórnin neyðist til að hætta við áform sín um að ná sölu upp á 5 milljarða danskra kr. árið 2010.

Þar að auki séu áætlanir um að tvöfalda hagnað ársins 2007 fram að 2010 einnig fyrir bí. Unibrew skilaði hagnaði upp á 220 milljónir danskra kr. árið 2007.

Heildarskuldir Unibrew í dag nema 2,2 milljörðum danskra kr. eða tæplega 44 milljörðum kr. Markaðsvirði verksmiðjanna er aðeins rúmlega fjórðungur af þessari upphæð.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×