Viðskipti erlent

Verðbréfamiðlun Straums í London bíður fyrirmæla frá Íslandi

Teathers, verðbréfamiðlun Straums í London, bíður nú fyrirmæla frá Íslandi. Starfsemi Teathers hefur legið niðri síðan í morgun þar sem kauphöllin í London hefur lokað fyrir öll viðskipti á vegum miðlunarinnar vegna hruns Straums á Íslandi.

Í frétt um örlög Teathers í London í breska blaðinu Daily Telegraph segir að störf 80 starfsmanna Teathers séu nú í uppnámi og er það í annað sinn á skömmum tíma. Landsbankinn var fyrri eigandi Teathers og keypti Straumur miðlunina þegar Landsbankinn hrundi s.l. haust.

Telegraph segir að alls séu um 150 starfsmenn Straums í Bretlandi í óvissu eftir að Fjármálaeftirlitið yfirtók bankann í morgun.

Þar á meðal er fjármálaþjónustan Stamford Partners með 10 starfsmenn. Straumur á helmingshlut í því félagi. Talsmaður Stamford segir hinsvegar að fjármálaeftirlitið á Íslandi geti ekki krafist greiðslustöðvunar hjá félaginu og það haldi því sínu striki eftir sem áður.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×